fimmtudagur, júní 08, 2006

Frá lokaleggnum

Á leiðinni frá Írlandi náðum við að halda nánast þráðbeinni stefnu ef undan er skilinn kafli þar sem við lentum í stífum mótvindi og leiðinda öldu sem töfðu okkur um a.m.k. 12 tíma. Á annars þráðbeinum ferli má sjá kafla með zigzag munstri en meðfylgjandi myndir skýra þetta betur. Ferillinn á eftir bátnum er 250 sjómílna langur og neðst í horninu má sjá í Írland.


og þegar nánar er skoðað...


Í blíðunni sem síðan gerði eftir þetta leiðindaveður, var tækifærið notað til að fara upp í mastur og lagfæra ókláran spotta og þá gafst undirrituðum kjörið tækifæri til að skoða farkostinn frá nýju sjónarhorni... :-)


Gott í bili...
Haraldur

sunnudagur, júní 04, 2006

Komnir til hafnar heilu og höldnu

Um kl 0100 síðastliðna nótt lögðumst við loks að bryggju. Eftir að tollayfirvöld og útlendingastofnun höfðu lokið sér af stigu nokkrir ættingjar og vinir og áhafnar um borð, skoðuðu farkostinn hátt og lágt og svo var slegið upp smá veislu.

Það er hálf óraunverulegt að vera allt í einu bara kominn heim og hafa aðgang að öllum þægindum eins og að sofa í rúmi og geta farið í sturtu þegar manni sýnist svo. Maður verður sennilega nokkra daga að skipta um lífsstíl á ný :-)

Báturinn liggur við Brokeyjarbryggjuna og er auðþekktur m.a. á því að hann ber enskt flagg og íslenskt gestaflagg, enda er hann sökum óendanlegrar kerfisvisku siglingastofnunnar, skráður í Bretlandi...

Þegar við verðum búnir að sofa og koma smá skikki á draslið okkar munum við setja inn fleiri myndir og meiri umfjöllun, sérstaklega um lokalegg ferðarinnar þ.e. frá Írlandi hingað heim.

Það hefur verið sérlega gaman að fylgjast með hve vel þessi síða hefur verið sótt af gestum. Því vil ég nota tækifærið og þakka lesendum okkar og þeim sendu inn komment eða skrifuðu í gestabókina. Það er alltaf gaman að svoleiðis og sérstaklega þegar maður er langt í burtu og aðstæður kannski ekki eins og maður hefði kosið.

Takk fyrir okkur :-)
Haraldur

laugardagur, júní 03, 2006

væntanlegir um miðnætti

kl. 20,30 voru þeir við garðskagavita.Áætla að vera i Reykjavikurhofn, Brokey kringum miðnætti.Kveðja Magnea

föstudagur, júní 02, 2006

Þeir nálgast !!!

Klukkan 22:00 voru þeir staddir 100 sjómílur frá Reykjanestá, í ágætis veðri en slæmu sjólagi. Áætlaður komutími er seinnipartinn á morgun eða annað kvöld.

Fyrir hönd Magneu ritara sem er með dauða tölvu, Svava vinkona hennar :-)

Stórsjónum á .....



Staðsetning kl. 21:00 N 60°44'5 og V17°38'7

Í gærkvöldi voru þeir búnir að undirbúa sig fyrir leiðindarveður og það var farið að hvessa svolítið hjá þeim, en samkvæmt veðurspá á ekki að vera meiri vindur en 6 vindstig. Þeir voru búnir að setja upp fínu appelsínugulu stormseglin til að nýta þennan vind sem best :)

Ég var því miður ekki í tölvusambandi í gærkvöldi og því kom þetta ekki fyrr. Ég vona að ég heyri frá þeim núna fyrir hádegi og þá kemur ný staðsetning og væntanlega tímasetning á heimkomu :)

Bestu kveðjur
Magnea

fimmtudagur, júní 01, 2006

Á fjórða degi yfir hafið.



Staðsetning kl. 13:00 N 60°02'7 og V 16°36'4

Það gengur vel hjá þeim, eru í fínu veðri en það spáir aðeins meiri vindi í nótt og því ætla þeir að reyna ná svefni í dag meðan það er hægt ;)

Ég heyri frá þeim aftur í kvöld.
Bestu kveðjur
Magnea

miðvikudagur, maí 31, 2006

Stolt siglir fleyið mitt.....



Staðsetning; N 58°41'4 og V14°31'9

Skútan líður áfram í nokkuð sterkum hliðarvindi. Vindurinn jókst aðeins og því rifuðu þeir um "tvo eitthvað", á eftir að læra þetta mál alveg :) Samt halda þeir um 8 mílna hraða.

Það voru hressir strákar sem hringdu áðan með staðsetningu og til að fá upplýsingar um veður, auðheyrilegt að þeir eru að skemmta sér konunglega. Með þessu áframhaldi ættu þeir að ná Reykjavíkurhöfn á föstudagskvöldið. Ennnnn við eigum eftir að sjá þessar veðurspár fara eftir ;)

Stig biður innilega að heilsa elskunni sinni :)

Bestu kveðjur
Magnea

Við Rockall



Staðsetning kl: 9:45 N57°27' V12°45'

Um klukkan 9:45 voru þeir að nálgast Rochall og reiknuðu með að vera beint norður af honum eftir um 5 tíma. Eru í stífum hliðarvindi og siglingin gengur vel.

Á kortinu sést vegalengdin sem þeir hafa siglt á síðustu 17 klukkustundunum.

Bestu kveðjur
Magnea

þriðjudagur, maí 30, 2006

Siglingin gengur ágætlega.



Staðsetning: N 55°57'9 og V 10°33'

Klukkan 16:20 sigldu þeir fyrir vélarafli og stefndu í norður. Vindurinn var einhvern veginn í allar áttir. Enn eftir að við höfðum rýnt í veðurspá og veðurkort á theyr.is þá sáum við að sunnan átt var bara rétt vestan við þá og þeir bara inni í lægðarmiðju. Þannig að þeir ætluðu bara stefna í þessa sunnan átt sem á að haldast og breytast aðeins í suðvestan átt og það er bara góður byr heim.

Þeir hringja aftur á morgun með nýja staðsetningu ;)

Bestu kveðjur
Magnea