La Rochelle - Reykjavík
Hann Arnar er að kaupa sér nýja seglskútu af gerðinni Dufour 34 og við Birgir og Haraldur ætlum ásamt honum til Frakklands að sækja hana. Hér verður lýst undirbúningi ferðarinnar ásamt fyrirhugaðri siglingu frá La Rochelle, sem er á miðri vesturströnd Frakklands, upp með Írlandi og þaðan til Reykjavíkur. Alls eru þetta um 1600 sjómílur.
laugardagur, apríl 29, 2006
fimmtudagur, apríl 27, 2006
Rúm vika til stefnu
Já , nú er farið að styttast verulega í að hoppað verði út í djúpu laugina, en brottför er þann 8. maí. Flogið verður til Parísar og síðan tekin lest til La Rochelle. Daginn eftir verður báturinn svo afhentur nýjum eiganda, hann yfirfarin og síðan reynslusiglt með fulltrúum seljanda. Síðan má gera ráð fyrir 2-3 dögum í snatt og reddingar áður en við síðan endanlega leggjum af stað með hann heim. Við höfum all rúman tíma en þurfum samt að vera komnir aftur til Reykjavíkur fyrir hádegi þann 10. júní.
Það er smá saman að renna upp fyrir undirrituðum að þetta er að verða að raunveruleika og viss spenningur er farin að gera vart við sig...
Haraldur
þriðjudagur, apríl 25, 2006
Hvernig á maður að nesta sig?
Eitt af því sem við þurfum að ákveða á næstunni er hvernig og hve mikinn mat við tökum um borð í La Rochelle. Framan af leiðinni munum við væntanlega geta hvílt okkur á skipskexinu og komist í land til að éta a.m.k. annan hvern dag. Síðan þurfum við að hafa eitthvað hentugt sem dugar fyrir okkur þrjá í svona 10-15 daga.
Hafið þið einhverjar tillögur???
Haraldur
fimmtudagur, apríl 20, 2006
Smá lagfæringar
Ég var að komast að því að einungis fáeinir útvaldir gátu semt inn kveðjur og skilaboð. Þessu stillingaratriði hefur nú verið breytt þannig að allir geta sent inn efni.
Minni svo á gestabókina :-)
Haraldur
miðvikudagur, apríl 19, 2006
Frá því fyrir tíma GPS og gervihnattasíma...
Um galdrastaf þennan segir einnig samkvæmt annarri heimild:
Ber staf þennan í millum brjósta þér þá þú ferðast og munt þú trauðla villast, hvorki í roki né vonskuveðrum. Eins munt þú ávallt rata þó á ókunna slóð farir. Þú gifturíka ferð munt gjöra. Þér ferðin gagnast vel og þú góðrar heimkomu njóta.
Datt bara sisvona í hug að kannski ætti þetta heima hér...
Haraldur
þriðjudagur, apríl 18, 2006
Back to business!
Jæja þá er páskafríið búið og næsta milestone er bara siglingin sjálf. Ég var í sumarbústað um páskana og afrekaði að lesa The RYA Book of the International Certificate of Competence og síðan hef ég líka verið að glugga í ævisögu Sir Peter Blake ... alveg magnaður caracter.
Ég er byrjaður að dreifa þessum link á vini og vandamenn til þess að þeir geti fylgst með siglingunni þegar hún hefst. Ef það hefur ekki enn komið fram þá er ætlunin að fljúga til France þann 8. maí og taka við bátnum þann níunda og sigla síðan af stað þegar allt er klárt ... sem ætti að geta verið nokkrum dögum seinna ef allt gengur upp skv. áætlun.
Eins og Haraldur talar um erum við búnir að stinga út nokkrar mismunandi leiðir og síðan þegar við verðum komnir til Scilly eyja þá munum við ákveða hvaða leið við veljum. Þar munu veður og vindar væntanlega ráða mestu. Við vorum í London um daginn og keyptum þar slatta af sjókortum og einnig fann Arnar bók frá Imray sem heitir Sailing Catalog 2006 ef ég man rétt. Þetta er magnað kvikindi og hefur nýst ótrúlega vel við undirbúning ferðarinnar. Þarna eru vel flestar ef ekki bara allar navigation upplýsingar sem maður þarf fyrir svona túr. Við mælum með þessu!
kveðja,
Biggi
mánudagur, apríl 17, 2006
Allar leiðir jafn langar
Jamm, nú erum við búnir að setja upp fjórar leiðir og það skondna er að þær eru nánast jafn langar, aðeins munar fáeinum tugum mílna á þeirri lengstu og þeirri skemmstu. Þetta eru sem sagt rétt um 1450 sjómílur, sama hvort farið er austan eða vestanvert við Írlandshaf, eða vestan við Írland. Þá munar einnig sáralitlu hvort lagt er í haf til Íslands við Sunnanvert Írland (Valentia) eða um miðbik þess (Broad Haven). Hins vegar munar um 140 mílum á lokaleggnum eftir því hvor leiðin er valin.
Skipulagning hér heima er að komast á lokastig og aðeins eftir að hnýta endanlega nokkra lausa enda. Síðan er spurningin hvaða uppákomur bíða okkar þegar út verður komið og hve langan tíma tekur að græja bátinn og komast af stað...
fimmtudagur, apríl 13, 2006
Google earth/maps - til að fylgjast með...
Nú segir það fólki e.t.v. ekki mikið að telja upp einhverja staði i útlöndum, eða tala um fjarlægðir á milli þeirra. Snilldarverkið Google earth býður upp á frábæra leið til að skoða fjarlægar slóðir án fyrirhafnar. Þetta er ókeypis forrit sem gefur kost á að skoða nánast allan heiminn á samsettum gervihnattamyndum, oft í ótrúlega góðri upplausn. Auk þess er hægt að finna ýmsar upplýsingar s.s. götukort, merkilega staði og jafnvel veitingahús. Þá sýnir bendill staðsetningu í lengd og breidd sem er áhugavert fyrir marga. Ég hef m.a. notað þetta til að skoða staðsetningu hafna, strandlengjur og margt fleira á fyrirhugaðri siglingarleið.
Annar möguleiki er að skoða sams konar myndir á google maps, en þar vantar flesta þá möguleika sem forritið býr yfir. Þessi leið er þó mun léttari í keyrslu á eldri tölvum.
Allir að ná sér í google earth :-)
Haraldur
þriðjudagur, apríl 11, 2006
Það verður náttúrlega að vera mynd
Hér að neðan er hliðarteikning af bátnum ásamt nokkrum mælistærðum. Með því að gúggla "dufour 34" má finna hellings upplýsingar um þessa báta og fjölda mynda.
Lengd: 10,60 m
Breidd: 3,48 m
Djúprista: 1,92 m
Neysluvatn: 265 l
Diselolía: 90 l
Vél: Volvo 29 hö
Hæð masturs: 12,78 m
Þyngd kjölfestu: 1670 kg
Frekari upplýsingar og myndr koma síðar
Haraldur
Þá er bara að byrja að blogga
Jæja þá er búið að koma upp þessari blogg síðu - Halli á heiðurinn af því. Nú er bara að dreifa þessum link á vini og vandamenn og allra þeirra sem vilja fylgjast með þessu ferðalagi okkar. Síðan verður uppfærð á meðan ferð stendur og hér verður því auðveldast að fylgjast með hvernig ferðinni miðar áfram.
Núna er hins vegar verið að vinna að undirbúningi á fullu. Við erum að klára að ganga frá ferðaplaninu - búnir að stilla upp 3 mismunandi leiðum fram hjá Írlandi og síðan veltur þetta á veðri og vindum hvaða leið verður farin. Annað sem þarf að huga að er, öryggismál - tryggja að öryggi báts og áhafnar verði fullnægjandi, skráning á bátnum, tryggingar, hvaða búnaður þarf að vera um borð - bæði fyrir bát og mannskap, matur - hvað á að borða á leiðinni, hvaða bækur þarf mannskapurinn að lesa fyrir ferðina, hvaða bækur þarf að hafa um borð, fjarskipi - samskipti okkar við umheimin á meðan á ferð stendur, fjárhagsáætlun - passa að kostnaður fari ekki upp úr öllu valdi, veðurspá - hvar/hvernig er best að ná í upplýsingar um veður á meðan ferð stendur o.s.frv. Það er sum sagt í mörgu að snúast fyrir svona ferð.
....þangað til næst kveðja
Biggi
mánudagur, apríl 10, 2006
Smá um undirbúninginn
Þegar þetta er skrifað þá hefur drjúgur undirbúningur átt sér stað. Komin er dagsetning á afhendingu bátsins og búið að panta flug til Parísar. Búið er að útvega kort og bækur af þeim svæðum sem ráðgert er að fara um, stinga út leiðir, velja hafnir og varahafnir. Verið er að kanna með að fá björgunargalla lánaða og lítur vel út með það mál. Þá erum við að vinna að fjarskiptamálum en ákveðið hefur verið að gervihnattarsími verði með í för. Ýmislegt fleira er í vinnslu en því verða gerð skil síðar.
Þegar haldið er í ferðalag af þessu tagi þá er betra að hafa einhverja hugmynd um hvað maður er að gera. Birgir tók pungaprófið af þessu tilefni og Arnar ætlar að taka yachtmaster offshore/ocean á næstunni. sjálfur er ég með pungapróf og yachtmaster offshore þannig að ef við klúðrum einhverju þá höfum við heldur lítið til að afsaka okkur með...!
Nóg í bili...
Haraldur